Ódýr og ókeypis afþreying

Ódýr og ókeypis afþreying

Margt er hægt að gera sér til skemmtunar án þess að það kosti mikið. Hér fyrir neðan getur þú fengið ýmsar hugmyndir að ódýrri afþreyingu.

Rauði krossinn hefur líka tekið saman bækling þar sem hægt er að finna ýmislegt til að gera, en hann er frá september 2011.

Aðgengilegar gönguleiðir

Upplýsingar um aðgengilegar gönguleiðir má finna á Facebook síðu Þekkingarmiðstöðvarinnar. Sendið okkur endilega ábendingar um aðgengilegar gönguleiðir hvar sem er á landinu.

Undir flipanum Aðgengi - Gönguleiðir og útivistarsvæði hér á vefsíðunni má finna upplýsingar um gönguleiðir.

Á vef Borgarvefsjár má finna gönguleiðir borgarinnar. Hægt er að skoða götukort af Reykjavík. Með því að Opna valglugga má t.d. haka við bekki og smella aftur á Uppfæra kort, þá  sjást hvar bekkir eru staðsettir í borginni.

Mörg bæjarfélög á Íslandi hafa byggt fjölnota íþróttahallir. Þar er hægt að ganga á svokölluðum tartanbrautum við góðar aðstæður. Flestar þessar íþróttahallir hafa opið fyrir almenning daglega og er aðgangur ókeypis.
Einnig er til dæmis hægt að ganga röskan hring í Ikea, Smáralind, á Glerártorgi eða í Kringlunni.

Bíó

Fólk í hjólastól fær ókeypis í bíó (á erlendar og íslenskar myndir) og aðrir öryrkjar fá afslátt af miðaverði á erlendar myndir. Sjá nánar upplýsingar um aðgengi í kvikmyndahúsum.

Bókasöfn

Öryrkjar fá bókasafnskort ókeypis á mörgum bókasöfnum eða greiða minna fyrir það. Þeir geta því tekið bækur ókeypis og skoðað blöð og tímarit á söfnunum. Hægt er að fá lánaða CD diska, ýmist ókeypis eða gegn vægu verði og VHS (videóspólur) ódýrt eða ókeypis. DVD spólur eru leigðar út mun ódýrara en ef farið er á videóleigur og eru myndir leigðar í tvo daga (í stað eins) og seríur leigðar í viku í senn.

Bæjarhátíðir

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur safnað saman upplýsingum um ýmiskonar bæjar- og sumarhátíðir víðs vegar um landið. Þessar upplýsingar geta komið þeim ákaflega vel sem hyggja á ferðalög innanlands  og þeim sem vilja taka þátt í hátíðarhöldum og viðburðum.

Sjá nánar um Bæjarhátíðir með því að klikka á valdar dagsetningar á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn

Ókeypis er fyrir öryrkja inn í garðinn. Ekki er þó fullkomið aðgengi í öllum garðinum, e.t.v. erfitt fyrir hreyfihamlaða að komast inn í sum húsin eða leiktækin með börnum sínum eða barnabörnum en hægt er að njóta samverunnar saman. Sjá nánar um garðinn á vefsíðu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins

Föndur

Ýmislegt er hægt að föndra ef fólk hefur tímann fyrir sér. Hér eru nokkrar hugmyndasíður fyrir föndrara

Garðyrkja

Hér fyrir neðan eru gagnlegar vefsíður tengdar garðyrkju. Hugmyndir að aðgengilegum görðum má finna undir Daglegt líf - Garðurinn .

Gerðuberg

Ýmis menningarstarfsemi fer fram í Gerðubergi og þar eru gjarnan uppákomur eða viðburðir, t.d. tónleikar, listsýningar og fyrirlestrar. Aðgangur að viðburðum er yfirleitt mjög ódýr eða ókeypis.
Á vefsíðu Gerðubergs er að finna upplýsingar um dagskrá og aðgangseyri.

Handavinna

Margir hafa gaman af handavinnu og eru til lausnir fyrir þá sem eiga erfitt með að nota hendurnar.

Ýmsar vörur tengdar saumaskap má finna á síðunni Maxi Aids.com - products for independent living

Til eru ýmsar gerðir ramma og hringja sem halda efninu föstu og er vefsíðan Joann - fabric and craft stores með úrval slíkra ramma sem geta veitt ykkur hugmyndir um hvað er til. Einnig er ýmis annar búnaður til þar.

Þriðja höndin er armur sem hægt er að nota að halda utan um efni sem unnið er með.

Segulklemma er notuð til að setja utan um blaðsíðu í bók til að geta t.d. fylgst með mynstri sem verið er að prjóna/sauma.

Kórastarf

Víðsvegar um landið eru starfandi margir kórar; karlakórar, kvennakórar, kirkjukórar, blandaðir kórar, skólakórar, ætthagakórar, vinnustaðakórar og svo framvegis. Margir þeir sem syngja í kór telja það bæði gott fyrir líkama og sál að syngja í góðum félagsskap. Á vefsíðunni Íslensk kóraskrá má finna lista yfir ýmsa kóra víðsvegar um landið.

Leiklist

Halaleikhópurinn

Halaleikhópurinn hefur það að markmiði að ,,iðka leiklist fyrir alla”. Leikhópurinn er samansettur af ólíkum einstaklingum, fötluðum sem ófötluðum og hefur lyft grettistaki í að eyða fordómum og styrkja einstaklinga til að taka skref, sem annars hefðu verið ófarin. Í hópnum er þörf fyrir alls kyns hæfileika því allir geta eitthvað og í mörg horn að líta.

Afsláttur/Frítt í leikhús

Fólk í hjólastól fær ýmist ókeypis í leikhús eða afslátt líkt og aðrir öryrkjar. Mikilvægt er að taka fram að viðkomandi sé með örorku og sýna skírteini því til staðfestingar þegar miðarnir eru keyptir. Sjá nánar um afslátt í leikhús og aðgengi í leikhúsum.


Lótushús

Lótushús er hugleiðsluskóli sem starfræktur hefur verið frá árinu 2000, fyrst í Kópavogi en nú á Garðatorgi í miðbæ Garðabæjar. Í Lótushúsi eru haldin hugleiðslu- og sjálfsstyrkingarnámskeið með reglulegu millibili allan ársins hring og hafa þúsundir Íslendinga sótt námskeið og viðburði á vegum skólans.
Ekkert gjald er tekið fyrir námskeiðin og er kostnaði mætt með frjálsum framlögum þátttakenda.


Spil og tafl

Bridgesamband Íslands er með upplýsingar um öll Bridgefélög á landinu ásamt fleiri upplýsingum um Bridge.

Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu er með á þriðjudagskvöldum yfir vetrarmánuðina bingo og  Uno-spilið og er það öllum opið.

Verslunin Spilavinir er með opin spilakvöld fyrir fullorðna tvisvar í mánuði, annan fimmtudag í hverjum mánuði og síðasta fimmtudag í hverjum mánuði. Það eru allir velkomnir á þessi spilakvöld.

Í Vinabæ eru allir velkomnir að koma og spila bingó á miðvikudags-og sunnudags kvöldum.

Tafl hefur ávallt verið vinsæl íþrótt sem líka er keppt í. Skáksamband Íslands er með margvíslegar upplýsingar um taflmennsku og skákmót. Þá eru víðsvegar taflfélög og hér er listi yfir þau .

Sund

Víða á landinu er ókeypis í sund fyrir öryrkja eða veittur afsláttur af aðgangseyri, sjá nánar um afslátt í sund á þessari síðu.

Söfn

Mörg söfn veita afslátt til öryrkja eða veita frían aðgang, betra er að athuga fyrirfram hvað safnið rukkar inn fyrir öryrkja. Vefsíðan Safnabókin.is hefur lista yfir söfn um allt land.

Tónlist

Einstaka sinnum er afsláttur fyrir öryrkja á tónleika. Mikilvægt er að spyrja að því þegar miðar eru keyptir.

Ókeypis er alla laugardaga í júní, júlí og ágúst að hlusta á Jazztónlist á Jómfrúartorginu (útiaðstaða við Jómfrúnna í Lækjargötu í Reykjavík).

Útivistarhjólastóll

Til eru sérstakir útivistarhjólastólar, svokallaðir Hippocampe,  á nokkrum stöðum á landinu sem hægt er að fá lánaða án endurgjalds. Útvistarhjólastóll auðveldar einstaklingum sem eiga erfitt með gang eða nota hjólastóla að fara um mólendi, strendur og í snjó, en hægt er að setja skíði undir stólinn til að fara um í snjó. Á höfuðborgarsvæðinu eru þessir stólar til útláns hjá Grensás, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Á Akureyri er til stóll hjá Sjálfsbjörg, á Akranesi er einn stóll en hann er staðsettur á sambýli og svo eru til útivistarhjólastólar á Húsavík, Egilsstöðum, Ísafirði og Vestmannaeyjum. Nánari upplýsingar fást hjá Íþróttasambandi Fatlaðra

Veiðistaðir

Hér höfum við tekið saman nokkra veiðistaði sem hægt er að komast að með eða án aðstoðar. Aðgengi hefur ekki verið tekið út á þessum stöðum heldur er þetta einungis út frá reynslu notenda. Ef þú veist um aðgengilegan veiðistað þá endilega hafðu samband við okkur.  

Veiðikortið er kort sem gefur fólki möguleika á ódýrari veiði en stéttarfélög og einhver starfsmannafélög gefa afslátt af veiðikortinu. Hreyfihamlaðir/öryrkjar hafa fengið afslátt af kortinu . Hér er hægt að fara beint inn á slóð til þess að kaupa Veiðkortið á sértilboði fyrir hreyfihamlað fólk

Hvítá við Hallanda

Hallandi við Langholt | 801 Selfoss | 695 9833 (Magnús)| magnus(hjá)hallandi.com | Fara á vefsíðu Hvítár við Hallanda.

Hvítá er ein af fáum hjólastólaaðgengilegum ám á landinu. Lax er veiddur á svæðinu. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Hvítár við Hallanda.

Hörgá í Eyjafirði

Hörgá í Eyjafirði | Hér getur þú sótt um veiðileyfi í Hörgá.

Hörgá er ekki aðgengileg nema með aðstoð en ef hún er til staðar er vel hægt að komast þarna að. Kynþroska sjóbleikja fer að ganga í Hörgá í júlí og þær sem ganga lengst fram í dalina koma fyrstar en bleikjan hrygnir annars um alla á. Þegar líður á sumarið fara göngur vaxandi og ná hámarki í ágúst.

Eyjafjarðará

Eyjafjarðará |601 Akureyri | Fara á vefsíðu Eyjafjarðarár.

Eyjafjarðará er ekki aðgengileg nema með aðstoð en ef hún er til staðar er vel hægt að komast þarna að. Eyjarfjarðará rennur norður eftir Eyjafjarðardal. Upptökin eru suður í botni dalsins, og koma þar saman margir lækir úr fjöllunum í kring og bera sumir árheiti. Meðalveiðin í Eyjafjarðaránni á árunum frá 1986 til 2010 var 2.132 bleikjur.

Andakílsá

Andakílsá | 311 Borgarfjörður | Fara á vefsíðu Andakílsár .

Andakílsá fellur úr Skorradalsvatni í Andakílsárfoss og liðast síðan u.þ.b. 8 kílómetra löng um sléttlendið niður í Borgarfjörð. Sumarið 2011 veiddust í Andakílsá 180 laxar sem er heldur minna en árin þar á undan þegar veiðin fór yfir 700 laxa þrjú ár í röð. Andakílsá er frábær fluguveiðiá og veiðast flestir laxanna á flugu.

Kriki við Elliðavatn

Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu á Krika við Elliðavatn. Kriki er útivistarsvæði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða og þar er líka húsnæði. Skuldlausir Sjálfsbjargarfélagar mega veiða í landi Krika. Þar er hægt að veiða frá bryggju (steinbryggjunni - hin er notuð til að komast í bátana þegar fæst aðstoð til að sigla á vatninu). Kriki er opinn eftir hádegi í júní, júlí og ágúst. Kriki er með facebook-síðu.

Vatnskot við Þingvallarvatn

Vatnskot við Þingvallarvatn |Þingvallarsveit í  Bláskógarbyggð | Landverðir þjóðgarsins veita upplýsingar

Aðstaðan í fyrir hreyfihamlað fólk og hjólastólanotendur í  Vatnskoti við Þingvallavatn er nokkuð góð og liggur þar greiðfær bryggja út að fínustu kaststöðum fyrir hreyfihamlað fólk og hjólastólanotendur. Þó eru ekki aðrir staðir við strandlengjuna hentugir fyrir hreyfihamlaða að sögn landvarðar (Torfi Stefán Jónsson landvörður og verkefnastjóri: maí 2016).

Frítt er fyrir börn í fylgd með fullorðnum. Elli og örorkulífeyrisþegar fá veiðileyfi fyrir sumarið endurgjaldslaust í þjónustumiðstöð. Sjá nánar á vefsíðu Þingvalla

Hægt er að hafa samband við landverði í þjónustumiðstöð þjóðgarðsins á Leirum en einnig er landvörður staðsettur við vatnið með aðstöðu í Vatnskoti og sinnir eftirliti þaðan. 

Ýmsir veiðistaðir 

Þekkingarmiðstöðin hefur fengið ábendingar um nokkra veiðistaði frá hjólastólanotanda sem hefur komist í veiði á eftirtöldum stöðum. En hægt er að sjá myndir og upplýsingar um veiðistaðina með því að fara með bendilinn yfir: 

Annað

Ýmsar listsýningar eru ókeypis, til dæmis margar ljósmynda- eða málverkasýningar.

Samvera og súpa er í félagsheimili Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu  Hátúni 12, 105 Reykjavík - efra bílastæðið (sunnan megin) inngangur nr. 7. Súpan með tilheyrandi er seld á sanngjörnu verði, og er þetta alla þriðjudaga yfir vetrarmánuði frá kl. 11:30-13:00. Sjá nánar á vefsíðu Sjálfsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu.


Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér